Hvað einkennir gott samfélag?
Hvað er það sem við leitum að þegar við veljum okkur stað til að búa á og ala upp börnin okkar? Fyrir rúmlega 17 árum síðan spurðum ég og maður minn okkkur að þessari sömu spurningu. Þá áttum við heima í Reykjavík í íbúð í Breiðholti sem hentaði okkur og okkar fjölskyldu illa og ákveðið var að leita að hentugra húsnæði. Við stóðum frammi fyrir því vali að kaupa íbúð í Reykjavík eða hugsanlega leita út fyrir borgarsteinana að stærra húsnæði. Eftir nokkra umhugsan ákváðum við að Akranes væri bærinn sem við vildum búa í. Hér þekktum við engan, áttum engar rætur og höfðum sjaldan heimsótt bæinn. Hvað var það því sem laðaði okkur að bænum? Jú, það var einstaklega hagstætt fasteignaverð sem gerði gæfumuninn. Hér gátum við keypt okkur stórt einbýlishús fyrir sama verð og litla íbúð í Reykjavík.
Hér höfum við átt heima í að verða 17 ár og hér viljum við vera um ókomna tíð. Hér höfum við alið upp fimm börn og tekið virkan þátt í skóla- og frístundastarfi þeirra. Hér höfum við átt okkur bestu stundir en jafnframt þær verstu.
Við fjölskyldan urðum fyrir því áfalli fyrir að verða þremur árum síðan að dóttir okkar veiktist alvarlega. Það sem við tók er vart hægt að lýsa og enginn getur skilið nema þeir sem hafa gengið í gegnum sambærilega reynslu. Eftir að hafa búið hér í þá fjórtán ár, þá vissum við að við ættum góða að í samfélaginu hér en það sem okkur óraði þó ekki fyrir var hversu samfélagið allt, stóð þétt við bakið á okkur. Þegar erfiðleikar steðja að, þá standa Skagamenn saman, í gegnum súrt og sætt. Við fengum að njóta þess styrks og þess samhugar og fyrir það erum við endalaust þakklát.
Það sem við höfum séð eftir að hafa gengið í gegnum þessa erfiðleika, er hversu gott fólk býr á Akranesi. Hér ríkir náungakærleikur og samkennd með öðru fólki, ofar öllu. Við stöndum saman og hjálpumst að við að gera góðan bæ enn betri.
Með þetta í huga, þá langar mig til að hjálpa til við að gera samfélag mitt enn betra og leggja mitt lóð á vogarskálina til þess. Ég býð fram krafta mína í komandi sveitarstjórnarkosningum og er tilbúin til að leggja mig alla fram við að gera Akranes að enn betra samfélagi til að búa í og ég vonast eftir að fá brautargengi til þess.
Liv Åse Skarstad
Höfundur er núverandi varabæjarfulltrúi Framsóknar og frjálsra á Akranesi og skipar annað sæti fyrir nk. sveitarstjórnarkosningar.