top of page
Search

Skipulagsmál skipta máli

Landrými á Akranesi er takmörkuð auðlind og gæta þarf margskonar hagsmuna þegar kemur að nýtingu þess. Skipulagsmál snúast ekki aðeins um úthlutun lands, heldur um uppbyggingu samfélagsins og eru þannig gríðarlega mikilvæg. Sú staðreynd að kjörtímabil telur fjögur ár og margir bæjarfulltrúar stoppa stutt við má ekki lita ákvarðanir sem teknar eru. Skipulagsmál eru langhlaup, ákvörðun dagsins í dag raungerist ekki endilega fyrr en að kjörtímabili loknu. Ákvarðanir um skipulag verða að vera hafnar yfir skammtímasjónarmið og til þess fallnar að þjóna hagsmunum heildarinnar, enda kunna þær að hafa áhrif næstu kynslóðir. Skipulagsyfirvöld á hverjum tíma geta haft mikil áhrif á samsetningu íbúa með sínum ákvörðunum og aðgerðum og þar með uppbyggingu samfélagsins.


Á því kjörtímabili sem nú er að ljúka hef ég verið formaður skipulags- og umhverfisráðs en þessi tími hefur verið mér mjög lærdómsríkur. Mig langar hér að fara mjög stuttlega yfir hluta af þeim skipulagssvæðum sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili.


Síðustu ár hafa einkennst af mikilli uppbyggingu, á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka hefur verið úthlutað lóðum undir u.þ.b. 600 íbúðir, einbýli, fjölbýli, rað- og parhús. Fyrirséð er að á næstu árum mun sú bæjarmynd sem við þekkjum í dag gjörbreytast, mörk íbúabyggðar munu færast út og á svæðum sem áður hýstu athafna- og iðnaðarsvæði mun byggjast upp blómleg byggð. Nýtt land verður tekið undir byggð líkt og í Skógarhverfi þar sem næstu áfangar eru nú að fara í útboðs- og úthlutunarferli. Á sama tíma er unnið að metnaðarfullri þéttingu líkt og á Sements- og Dalbrautarreit. Sú stefna sem unnið hefur verið eftir undanfarið birtist áfram í nýju aðalskipulagi Akraneskaupstaðar sem unnið er að.


Sementsreiturinn er einstakt svæði. Þar munu á næstu árum byggjast upp minnst 400 íbúðir ásamt verslunar- og þjónusturými. Framkvæmdir eru að hefjast við fyrsta áfanga, en í mars var gengið frá úthlutun lóða undir allt að 115 íbúðir og er vinna við úthlutun á næsta áfanga þegar hafin. Það er einstakt að bæjarfélag fái tækifæri líkt og þetta þ.e. tæplega 8 hektara af landi í miðjum bæ. Þetta tækifæri er mikilvægt að nýta af skynsemi.

Fyrir nokkrum árum var farið í miklar framkvæmdir við Akratorg sem að mínu mati heppnuðust mjög vel. Við þurfum að halda áfram þeirri vegferð og á sama tíma skapa tækifæri fyrir íbúa og atvinnurekendur svo miðbærinn megi blóstra og eflast. Mikilvægt er að ná tengingu á milli miðbæjarins og Sementsreitsins með góðum göngu- og hjóla leiðum. Með því mætti skapa einstaka upplifun fyrir íbúa og þá sem sækja Skagann heim, upplifun af því að fara á milli þessara skemmtilegu svæða þ.e. hafnarinnar, Sementsreitsins og miðbæjarins og sækja þar fjölbreytta þjónustu og njóta þess sem umhverfið hefur uppá að bjóða.


Ekki má í þessu sambandi gleyma Breiðinni, en nú er í gangi hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag svæðisins og munu niðurstöður liggja fyrir síðar í sumar. Markmiðið er að fanga þá ótal möguleika sem svæðið hefur upp á að bjóða í sátt við einstaka náttúru. Íbúabyggð, ferðaþjónustutengd starfsemi eins og hótel og afþreying og ekki síst atvinnustarfsemi tengd hátækni, nýsköpun og vísindum, möguleikarnir þar eru miklir.


Dalbrautarreiturinn er eitt af þeim svæðum sem flestir íbúar tengja við atvinnustarfsemi. Starfsemi ÞÞÞ sem flutti þaðan fyrir nokkrum árum og byggði upp myndalega starfsstöð á Smiðjuvöllum, starfsstöð OR mun víkja af svæðinu á næstu vikum, en fyrirtækið var það fyrsta til þess að byggja upp í flóahverfinu. N1 mun svo á næstu tveimur árum flytja alla starfsemi sína og byggja upp við Hausthúsatorg. Með þessum breytingum verður til heildstætt skipulag í takt við það sem nú þegar hefur risið á reitnum. Þá eru miklar breytingar í gangi við Ægisbraut, sem færist svo úr því að vera hreint iðnaðarsvæði og yfir í blandaða byggð, þ.e. íbúðabyggð sem útilokar ekki atvinnustarfsemi og gefur tækifæri á umbreytingu svæðisins. Í Flóahverfinu mun svo á næstu árum rísa iðnaðarhverfi. Grænt hverfi þar sem áherslan er á sjálfbærni og hringrásarhagkerfið. Þetta er mikilvægt skref enda er öflugt atvinnulíf forsenda fjölbreyttrar íbúðabyggðar og mannlífs.


Á þessari stuttu, en alls ekki tæmandi yfirferð, er ljóst að Akranes hefur alla burði til þess að vaxa og dafna áfram á næstu árum. Að mörgu er að huga og mikilvægt að fá fram sjónarmið íbúa sem hafa ólíkar þarfir og langanir. Skipulagið þarf að vera með þeim hætti að okkur líði vel í umhverfinu, þægilegt sé að komast á milli staða með mismunandi ferðamáta og um leið að við fáum að njóta ómetanlegrar náttúru sem er hér allt í kring um okkur.

Það er bjart framundan á Skaganum.

Ragnar Sæmundsson

Höf. er formaður skipulags- og umhverfisráðs og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar og frjálsra á Akranesi

1 view0 comments

Recent Posts

See All
Post: Blog2_Post
bottom of page